Fréttir

Gleðilega hátíð - 22.12.2010

Starfsfólk skrifstofu félaga verkfræðinga og tæknifræðinga óskar félagsmönnum öllum gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári. Þökkum ánægjuleg samskipti á árinu sem er að líða. Vinsamlega athugið að skrifstofa félaganna verður lokuð á Þorláksmessu og milli jóla og nýárs.

Árbók VFÍ og TFÍ 2010 er komin út - 7.12.2010

Árbók Verkfræðingafélags Íslands og Tæknifræðingafélags Íslands 2010 er komin út. Ritstjóri Árbókarinnar er Ragnar Ragnarsson, verkfræðingur. Árbókin hefur verið send til allra félagsmanna en er til sölu á skrifstofu félaganna og kostar kr. 4.000.-

Lesa meira

Þrír heiðursfélagar TFÍ - 25.10.2010

IMG_3787Á 50 ára afmælishátíð Tæknifræðingafélags Íslands voru Daði Ágústsson, Freyr Jóhannesson og Paul D.B. Jóhannsson útnefndir heiðursfélagar TFÍ.  Sæmdarheitið heiðursfélagi TFÍ er æðsta viðurkenning sem félagið veitir.

Á meðfylgjandi mynd eru f.v. Árni B. Björnsson, framkv.stj. TFÍ, Freyr Jóhannesson, Daði Ágústsson, Paul D.B. Jóhannsson og Bergþór Þormóðsson, form. TFÍ. Við sama tækifæri fengu Árni G. Guðnason, Einar H. Jónsson og Páll Jónsson gullmerki félagsins.

Afmælishátíð 20. - 22. október - 14.10.2010

Tæknifræðingafélag Íslands fagnar 50 ára afmælinu í Háskólanum í Reykjavík dagana 20. - 22. október. Hátíðinni lýkur með móttöku fyrir félagsmenn og aðra boðsgesti í Nauthól. Allir eru velkomnir og er dagskrá Afmælisdaganna hér.

Áhugaverðustu sprotafyrirtækin - 6.10.2010

Eyþór Ívar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Klaks, hefur tekið saman lista yfir áhugaverðustu sprotafyrirtækin. Eru þau 140 talsins. Klak - Nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins var stofnað af Nýherja árið 2000 og fyrir þremur árum gerðist Háskólinn í Reykjavík samstarfs- og eignaraðili.

Fagstéttir, hrunið og framtíðin - 1.9.2010

Á Samlokufundi fimmtudaginn 30. september munu Stefán Einar Stefánsson, viðskiptasiðfræðingur og Vilhjálmur Bjarnason, viðskiptafræðingur fjalla um fagstéttir, hrunið og framtíðina. Munu þeir ræða stöðu fagstétta með sérstöku tilliti til sjálfstætt starfandi sérfræðinga.  Ljóst er að fagstéttir hafa ekki það traust meðal almennings sem þær almennt höfðu áður. Hvaða áhrif hafði hrunið á þá þróun og hvað geta fagstéttir gert til þess að endurheimta þennan mikilvæga þátt í viðgangi sínum og hlutverki? eru meðal spurninga sem leitast verður við að svara. Fundurinn er í boði Félags stjórnenda og sjálfstætt starfandi tæknifræðinga (STFÍ) og eru allir félagsmenn TFÍ, SV og VFÍ velkomnir á fundinn.

Afmælishátíð TFÍ verður í október - 24.8.2010

Í tilefni af 50 ára afmæli Tæknifræðingafélags Íslands mun félagið standa fyrir afmælisdögum í Háskólanum í Reykjavík dagana 20.-22. október. Fluttir verða fyrirlestrar og afmælishátíðinni mun ljúka með mótttöku og verður boð sent öllum félagsmönnum.

Verkfræðingar unnu golfmótið - 10.8.2010

Árlegt golfmót verkfræðinga og tæknifræðinga var haldið í fjórtánda sinn þann 6. ágúst. Mótið fór fram á golfvelli Golfklúbbs Hellu að Strönd á Rangárvöllum í góðu veðri. Verkfræðingar fóru með sigur af hólmi í sveitakeppninni, þriðja árið í röð.

Kjarakönnun KTFÍ 2010 - 7.7.2010

Niðurstöður Kjarakönnunar KTFÍ 2010 eru birtar á vefnum.  Í könnuninni var spurt um laun á árinu 2009 og mánaðarlaun í febrúar 2010.

50 ára afmæli TFÍ - 6.7.2010

Tæknifræðingafélag Íslands á 50 ára afmæli í dag, 6. júlí. Í haust verður afmælishátíð og verður hún auglýst í Verktækni og hér á vefsíðu félagsins þegar nær dregur. Þá kemur einnig út bókin Tækni fleygir fram sem er saga tæknifræðinnar á Íslandi.

VerkTækni golfmótið verður 6. ágúst - 30.6.2010

Árlegt golfmót verkfræðinga og tæknifræðinga, VerkTækni Opið, verður haldið á Strandarvelli við Hellu föstudaginn 6. ágúst. Nánari upplýsingar.

Kynningarfundur Almenna lífeyrissjóðsins - 11.6.2010

Á Samlokufundi 16. júní mun Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, kynna stöðu sjóðsins og framtíðarhorfur. Á fundinn mætir einnig Páll Á. Pálsson, formaður stjórnar og munu Gunnar og Páll svara fyrirspurnum að lokinni kynningu.

Fyrirlestrar um vatnsveitumál - 20.5.2010

Áhugaverðir fyrirlestrar um vatnsveitumál á vegum Vatnsveitu og fráveitufélags Íslands (VAFRÍ) og Háskóla Íslands verða fimmtudaginn 27. maí kl. 16-18 í VR-II stofu 158. Lesa meira

Hærri styrkir úr sjóðum - 5.5.2010

Starfsreglur Fjölskyldu- og styrktarsjóðs KTFÍ og Sjúkrasjóðs KTFÍ hafa tekið nokkrum breytingum. Þær felast aðallega í að styrkir hafa hækkað og nú greiða báðir sjóðirnir styrk til líkamsræktar.

Aðalfundur Almenna lífeyrissjóðsins - 3.5.2010

Ársfundur Almenna lífeyrissjóðsins var haldinn á Grand Hótel Reykjavík 29. apríl. Í frétt á vefsíðu sjóðsins segir að fundurinn hafi verið fjölmennur og líflegur. Samkvæmt tillögu stjórnar sjóðsins var samþykkt að lækka lífeyrisréttindi í samtryggingarsjóði hlutfallslega þann 1. júní 2010 um 12%. Fundurinn felldi tillögu um ályktun fundarins um að sitjandi stjórnarmenn, sem sátu í stjórn fyrir bankahrun, skyldu segja af sér. Einnig voru felld tilmæli til stjórnar um að laun stjórnar, framkvæmdastjóra, fjárfestingarstjóra og sjóðstjóra yrðu lækkuð um 20%.   Lesa meira

Brunavarnaþing verður 16. apríl - 14.4.2010

Brunavarnaþing 2010 verður haldið föstudaginn 16. apríl í bíósal Hótels Loftleiða. Húsið opnar kl. 8 með skráningu og kaffi og kl. 8:30 hefst formleg dagskrá. Yfirskrift þingsins er burðarvirki og brunavarnir. Nánari upplýsingar eru í skjalinu.

Rýni 2010 - 13.4.2010

Frá árinu 1998 hefur Tæknifræðingafélag Íslands skipulagt árlegar námsferðir á erlenda grund fyrir tæknifræðinga og verkfræðinga. Ferðir þessar hafa verið afar vinsælar og stundum færri komist að en viljað. Í ár er ferðinni heitið til Þýskalands, nánar tiltekið til Dresden, þar sem gist verður í fimm nætur. Gert er ráð fyrir allt að 60 þátttakendum í ferðina.

Lesa meira

Aðalfundur TFÍ - 29.3.2010

Aðalfundur Tækniræðingafélags Íslands var haldinn 25. mars s.l. Að þessu sinni var sjálfkjörið í stjórn félagsins. Bergþór Þormóðsson var endurkjörinn formaður til tveggja ára, Jón Arnarson og Þorleifur Magnús Magnússon voru kosnir meðstjórnendur til tveggja ára og Anna Elín Jóhannsdóttir, varamaður til eins ár. Aðrir í stjórn TFÍ eru: Helgi Pétursson og Benedikt Halldór Halldórsson, auk eins fulltrúa frá KTFÍ annars vegar og STFÍ hins vegar. Ársskýrsla TFÍ með ársreikningum fyrir starfsárið 2009-2010 er hér. Athugið að í skýrslunni er einnig ársskýrsla KTFÍ, reikningar félagsins og sjóða í vörslu þess.

Aðalfundur TFÍ - 19.3.2010

Aðalfundur TFÍ verður haldinn fimmtudaginn 25. mars í Verkfræðingahúsi, Engjateigi 9, kl. 17. Fundarboð var sent félagsmönnum með tölvupósti ásamt tillögum að lagabreytingum.

Ársskýrsla KTFÍ - 19.3.2010

Aðalfundur Kjarafélags Tæknifræðingafélags Íslands var haldinn í gær, fimmtudaginn 18. mars. Hér má nálgast ársskýrslu félagsins sem inniheldur skýrslu stjórnar og sjóða félagsins.

Aðalfundur KTFÍ - 14.3.2010

Aðalfundur Kjarafélags Tæknifræðingafélags Íslands verður haldinn fimmtudaginn 18. mars í Verkfræðingahúsi, Engjateigi 9. Fundurinn hefst kl. 17. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf. Félagsmenn eru eindregið hvattir til að mæta.

Sumarúthlutun OBHM - 9.2.2010

Orlofsblað BHM 2010 er komið út. Í blaðinu er gerð grein fyrir þeim valkostum sem félagsmönnum bjóðast í sumar, bæði innanlands og utan. Umsóknarfrestur vegna umsókna um páska og útlönd (7/5 - 20/9 2010) rennur út á miðnætti 1. mars. Umsóknarfrestur vegna sumarúthlutunar innanlands rennur út á miðnætti 1. apríl n.k. Hægt er að ganga frá umsókn á bókunarvef sjóðsins, þar þarf að velja „umsóknir og úthlutanir“. KTFÍ er aðili að Orlofssjóði BHM. Félagsmenn sem starfa hjá opinberum, hálf opinberum og á almennum markaði geta greitt til OBHM

Nýjar starfsreglur sjóða - 27.1.2010

Starfsreglur Fjölskyldu- og styrktarsjóðs KTFÍ og Sjúkrasjóðs KTFÍ hafa tekið nokkrum breytingum. Sjóðfélagar Fjölskyldu- og styrktarsjóðs starfa hjá ríki og sveitarfélögum en sjóðfélagar Sjúkrasjóðsins starfa samkvæmt kjarasamningi KTFÍ við Félag ráðgjafarverkfræðinga (FRV). Sjóðfélagar eru hvattir til að kynna sér reglurnar. Starfsreglur Fjölskyldu- og styrktarsjóðsins og starfsreglur Sjúkrasjóðsins.

Ný kjarakönnun - 15.1.2010

Niðurstöður úr Kjarakönnun KTFÍ fyrir septembermánuð 2009 liggja nú fyrir.  Hægt er að nálgast skjalið með því að fara inn á Kjaramál hér fyrir ofan. Þess má geta að ný markaðslaunatafla verður sett hér inn vefinn fljótlega.