Fréttir

Gerðardómar í mannvirkjagerð

31.3.2006

Þann 29. mars s.l. efndu Verkfræðingafélag Íslands og Samtök iðnaðarins til opinnar ráðstefnu um gerðardóma í mannvirkjagerð. Þar var meðal annars kynnt starf nefndar sem falið var að endurskoða núgildandi reglur um Gerðardóm VFÍ.

Gerðardómur VFÍ var stofnaður árið 1915 en hefur aldrei náð að festa sig í sessi og deilumál sem segja má að tilheyri starfssviði hans fara fyrir almenna dómstóla. Er svo komið að á síðustu árum hafa sárafá mál komið til kasta Gerðardómsins. Nefndin sem skipuð var, og minnst var á hér að framan, kannaði helst hvort gerðardómurinn væri orðinn óþarfur eða hvort ástæða væri til að endurskoða hanna.

Nefndin mat það svo að sá gerðardómur í mannvirkjagerð sem rekinn er í Danmörku sé áhugaverður kostur. Helstu rökin eru þau að í upphafi var Gerðardómur VFÍ að danskri fyrirmynd og danski dómurinn hefur þróast í takt við markaðinn, um fyrirkomulagið ríkir sátt og sú leið að fara með deilumál fyrir gerðardóminn er algild þar í landi.

Steinar Friðgeirsson, formaður VFÍ, setti ráðstefnuna og lýsti tildrögum þess að nefndin var skipuð. Fjármálaráðherra Árni M. Mathiesen flutti ávarp og kynnti sjónarmið stjórnvalda. Þar kom m.a. fram að breytingar á fyrirkomulagi þessara mála yrðu ekki gerðar nema í fullri sátt allra aðila. Kolbeinn Kolbeinsson, aðstoðarframkvæmdastjóri ÍSTAK fór yfir stöðuna hér á landi og tveir fulltrúar frá gerðardóminum í Danmörku lýstu fyrirkomulaginu þar í landi.

Efni frá ráðstefnunni:

Dagskrá og ávarp Óskars Valdimarssonar
Erindi Kolbeins Kolbeinssonar
Erindi Bent Frank og Per Helwig

Senda grein