Fréttir

TFÍ veitir viðurkenningu fyrir lokaverkefni

23.6.2006

Við útskrift frá Háskólanum í Reykjavík sem fór fram nýlega veitti Tæknifræðingafélag Íslands viðurkenningu fyrir tvö lokaverkefni. Bæði verkefnin falla að þeim kröfum sem stjórn TFÍ gerir til lokaverkefna nemenda þar sem einkum er lagt mat á nýsköpun og að verkefnið falli að íslenskum aðstæðum.

Verkefnin sem hlutu viðurkenningu eru:

Facilities management (Fasteignastjórnun) innan og utan veggja tónlistar- og ráðstefnuhúss í Reykjavík. Höfundur er Aron Njáll Þorfinnsson, nemandi í byggingartæknifræði.

Hljóðmælingar í vatni. Höfundar eru Elling Guðmundsson og Helgi Hafsteinsson, nemendur í rafmagnstæknifræði.

Facilities management eða fasteignastjórnun er viðfangsefni sem lítill gaumur hefur verið gefinn á Íslandi fram að þessu. Markmiðið með fasteignastjórnun er að hámarka alla nýtingu fasteignar og lágmarka allan rekstrarkostnað hennar. Verkefnið tekur á þessum þáttum og leitast er við að finna hagkvæmar og hentugar lausnir. Í verkefninu er þess getið hversu mikilvægt það er að taka tillit til fasteignastjórnunar strax á fyrstu stigum við hönnun mannvirkis.

Hljóðmælingar í vatni er viðfangsefni þar sem leitast er við að hanna búnað til hlustunar á hljóði frá djúpfari. Djúpfar er mannlaus kafbátur sem meðal annars er ætlað að leita að djúpsprengjum. Djúpsprengjur eru næmar fyrir hljóði og springa ef styrkur þess fer yfir ákveðin mörk. Niðurstöður verkefnisins verða notaðar til að meta hvort styrkur hljóðs frá djúpfarinu fari yfir viðmiðunarmörk. Verkefnið er nýstárlegt og tengist ákveðinni tækni þar sem Íslendingar eru að hasla sér völl. Útrás og þekking Íslendinga á hátæknibúnaði er mikil, en mikilvægara er að gera tæknimönnum mögulegt að þróa og rannsaka nýjar leiðir og nýja hugsun við þróun hátæknibúnaðar. Verkefnið hefur leitt til nýrrar hugsunar og nýrra lausna á erfiðum viðfangsefnum.

Senda grein