Fréttir

Skoðunarferð að Kárahnjúkum

18.8.2006

Árleg skoðunarferð VFÍ og TFÍ á virkjunarsvæðið við Kárahnjúka verður farin laugardaginn 2. september n.k. Einnig er í boði að skoða Lagarfljótsvirkjun daginn eftir. Rétt er að minna á að fimmtudaginn 31. ágúst kl. 12:00 verður Samlokufundur þar sem Guðmundur Pétursson staðarverkfræðingur fjallar um framvindu Kárahnjúkavirkjunar.

Hægt er að velja á milli dagsferðar eða helgarferðar. Í dagsferðinni verður flogið með áætlunarflugi Flugfélags Íslands til Egilsstaða kl. 08:00 laugardaginn 2. september og til baka til Reykjavíkur að kvöldi sama dags kl. 20:25. Frá Egilsstaðaflugvelli verður haldið með rútu að virkjunarsvæðinu þar sem boðið verður upp á leiðsögn um svæðið ásamt hádegisverði. Verð fyrir ferðina er kr. 20.000- þ.e. flug og annar ferðakostnaður frá flugvelli um virkjunarsvæðið og til baka á Egilsstaðaflugvöll.

Þau sem kjósa helgarferðina fljúga með sama flugi að morgni laugardagsins og dagskrá er sú sama þann dag. Aðfaranótt sunnudags verður gist á Hótel Valaskjálf, Skógarlöndum 3, Egilsstöðum. Á sunnudeginum verður farið í heimsókn í Lagarfljótsvirkjun. Ráðgert er að leggja af stað með rútu frá hótelinu kl. 10:30. Ráðgert er að skoðunarferðin taki fimm klukkustundir. Flogið verður um kvöldið til Reykjavíkur kl. 20:55. Helgarferðin kostar kr. 28.000 á mann í tveggja manna herbergi en kr. 30.000 í eins manns herbergi.

Eins og fyrri ár verður boðið upp á jeppaferð frá Reykjavík og Akureyri. Fyrirkomulag ferðarinnar er sem hér segir:

Lagt verður af stað kl. 15:00 fimmtudaginn 31. ágúst frá Select við Vesturlandsveg. Ekið verður um 160 km að hálendismiðstöðinni í Hrauneyjum sem er um tveggja klst. akstur, þar sem verður gist. Ef tími vinnst til verður ekinn hringur um Veiðivatnasvæðið sem tekur u.þ.b. tvær klst. Þátttakendur hafa val um að leggja af stað kl. 15:00 á fimmtudeginum eða mæta í Hrauneyjar kl. 8:00 á föstudagsmorgninum.

Á föstudeginum kl. 8:00 verður lagt af stað frá Hrauneyjum og ekið um Gæsavatnaleið yfir Urðarháls að Öskju. Áætlað er að ganga að Öskjuvatni og Víti sem er um tveggja km leið og tekur sú ganga um 1/2 klst. hvora leið. Gist verður í skála Ferðafélags Akureyringa Dreka við Drekagil. Vegalengd sem ekinn verður þann dag er ca. 200 km og aksturstími ca. 6 - 8 klst.

Laugardagsmorguninn kl. 7:00 verður ekið að Végarði og þaðan farið með rútu að virkjanasvæðinu við Kárahnjúka. Mæting í Végarði er kl. 11:00. Vegalengdin frá Dreka að Végarði er ca. 100 km eða 3 - 4 klst.

Síðdegis á laugardag, að skoðunarferð lokinni á jeppafólk tvo kosti: a) Gista á Héraði og skoða Lagarfljótsvirkjun á sunnudegi eða b) yfirgefa hópinn og halda áleiðis til síns heima.

Athygli er vakin á að: - Þátttakendur þurfa hver um sig að panta gistingu á Egilsstöðum eftir þörfum. - Gæsavatnaleið er grýtt og seinfarin. Hún hentar eingöngu vel búnum, áreiðanlegum jeppum á góðum dekkjum (33? að lágmarki), þar sem ekið er um stórgrýti, hraunfláka og sanda. - Ferðaáætlun er með fyrirvara um ófyrirsjáanlegar breytingar á veðri. - Þátttakendur sjái um kostnað við nesti, gistingu og annan útbúnað sem þarf, hver fyrir sig og að sjálfsögðu ferðast hver og einn á sína eigin ábyrgð. Gert er ráð fyrir að stoppa sem víðast og teygja aðeins úr sér, jafnvel ganga stuttan spöl. (Muna eftir gönguskónum og hlífðarfötum). - Við brottför verður sérstakur undanfari skipaður sem sér til þess að hópurinn fari rétta leið og annar eftirfari sem rekur lestina. Eingöngu verður ekið á vegslóðum. Akstur utan þeirra er bannaður og hópurinn verður auðvitað fyrirmynd annarra í þessum efnum sem öðrum. Þátttakendur skulu skrá sig í ferðina á skrifstofu TFÍ/VFÍ og gefa upplýsingar um farartæki og helsta útbúnað. Þátttökugjald sem er kr. 2.000. er vegna kostnaðar við rútuferð um virkjunarsvæðið. Skálagjöld þarf að greiða á staðnum.

Skráning er hafin á netföngin: tfi@tfi.is eða vfi@vfi.is og í síma 568- 8511.

Senda grein